Fótbolti

Infantino: Ekki búið að ákveða skiptingu á milli heimsálfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, hélt í dag blaðamannafund þar sem hann svaraði spurningum um nýja 48 liða heimsmeistarakeppni í knattspyrnu.

Í dag var staðfest að frá og með HM 2026 verði 48 þátttökuþjóðir í keppininni, ekki 32 eins og verið hefur.

Sjá einnig: 48 liða HM samþykkt hjá FIFA

Infantino lagði ríka áherslu á að leikjaálagið á leikmenn verði ekki meira með nýju fyrirkomulagi. Mótið stendur enn yfir í 32 daga og lið sem fara alla leið spila sjö leiki.

Hann sagði enn fremur að enn væri ekki búið að ákveða hvernig ætti að deila aukasætunum sextán á milli heimsálfa. „Mótsreglurnar verða samdar nokkrum árum fyrir mótið og er ekki búið að ákveða neitt núna,“ sagði hann.

Orðrómur er á kreiki að Evrópa fái aðeins þrjú aukasæti, sextán í stað þrettán. Asía og Afríak fái hins vegar fleiri sæti og fari nálægt því að tvöfalda fjölda liða sem komast á HM frá þeim heimsálfum.

Infantino benti á að 54 aðildarsambönd eru í Afríku en 53 í Evrópu. Samt sé Evrópa með þrettán þátttökuþjóðir en Afríka fimm. „Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem við munum skoða,“ bætti forsetinn við.

Þá hefur einnig veirð rætt um þann möguleika að vítaspyrnukeppni verði notuð til að knýja fram niðurstöðu í leikjum sem lýkur með jafntefli í riðlakeppninni.

Sjá einnig: Verður jafnteflum útrýmt á HM?

Infantino sagði að það væri ekki búið að ákveða neitt í þeim efnum. „Það verður ákveðið síðar. Það eru nú þegar til reglur til að skera á milli þjóða sem eru jafnar að stigum og við þurfum að athuga hvort við þurfum að nota aðrar leiðir til þess,“ sagði Infantino.

Liðunum 48 verður skipt í sextán þriggja liða riðla. Tvö lið komast áfram í 32-liða úrslitin og staðfesti Infantino í dag að sigurvegari hvers riðils mun spila gegn liði sem lenti í 2. sæti síns riðils í 32-liða úrslitunum.

Ekki hefur verið ákveðið hvar HM 2026 fer fram en útboðsferli keppninnar lýkur árið 2020.


Tengdar fréttir

48 liða HM samþykkt hjá FIFA

Liðunum verður skipt í sextán þriggja liða riðla. Nýja fyrirkomulagið tekur gildi árið 2026. Tillagan var samþykkt einróma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×