Maður sem grunaður er um að hafa orðið konu að bana í íbúð hennar við Hagamel í gærkvöldi var í dag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur nú síðdegis.
Rannsókn lögreglu er nokkuð langt komin og liggur atburðarásin nokkuð skýr fyrir. Annar maður sem einnig var handtekinn í gær var látinn laus úr haldi lögreglu upp úr klukkan þrjú í dag. Lögreglan telur ekki að hann tengist málinu.
Málið er rannsakað sem manndráp en kona, sem er af erlendu bergi brotin og á fimmtugsaldri, var fluttuð alvarlega slösuð á slysadeild Landspítalans í gær eftir að hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á heimili sínu. Hún var úrskurðuð látin á spítalanum.
Maðurinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í dag er erlendur ríkisborgari og á fertugsaldri. Hann var gestkomandi í íbúðinni við Hagamel í gær en Íslendingurinn sem látinn var laus í dag bjó í íbúðinni líkt og konan.
Samkvæmt heimildum Vísis bjuggu þrír í íbúðinni við Hagamel sem er lítil risíbúð, um þrjátíu fermetrar. Íbúðinni er skipt niður í minni einingar sem hver fyrir sig er leigð út. Konan, maðurinn og þriðja kona sem er erlendur námsmaður, búsett á Íslandi, deila íbúðinni. Konan mun ekkert tengjast málinu.
