Innlent

Þolendur upplifa sig vanmáttuga

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þolendur kynferðisofbeldis upplifa sig gjarnan utanveltu í réttarkerfinu þegar mál þeirra eru tekin fyrir. Doktorsnemi telur rétt að þolendur séu ekki einungis vitni í eigin máli.

Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktorsnemi í réttarfélagsfræði við Háskólann í Lundi, vann rannsókn er byggði á viðtölum um 35 þolendur kynferðisofbeldis. Um helmingur þeirra hafði farið með mál sín fyrir dómstóla en mál annarra voru ýmist fyrnd eða fóru ekki lengra af öðrum ástæðum.

Hún segir viðtölin sýna óánægju brotaþola með kerfið. „Eitt af því sem kemur fólki mjög spánskt fyrir sjónir er að brotaþolar eru í stöðu vitnis í málinu og hafa ekki aðild að málinu. Aðilarnir sem hafa skilgreindra hagsmuna að gæta í málinu eru ríkið annars vegar og sakborningur hins vegar. Brotaþolar eru lykilvitni með lítinn rétt," segir Hildur.

Hún segir þolendur upplifa sig vanmáttuga í þessum aðstæðum.

„Fólk upplifir að það sé jaðrað og hliðrað í kerfinu, fái litlar upplýsingar og hafi lítið um málið að segja," segir hún.

Íslenskur réttur svipar að þessu leyti til dansks og norsks réttar en framkvæmdin er önnur í t.d. Svíþjóð.

„Í Svíþjóð og Finnlandi eru þolendur aðilar að málum og hafa miklu meira aðgengi að öllu ferlinu. Það er því ekkert endilega sjálfsagt að brotaþolar séu með stöðu vitnis í máli," segir Jóhanna.

Hún telur að skoða mætti breytingar á þessu hér á landi.

„Það væri gaman að sjá að þetta yrði skoðað og þá hvernig væri hægt að bæta þetta ferli. Þannig að brotaþolar upplifi allavega að ferlið sé ásættanlegt," segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×