Erlent

Vantraust á rúmensku ríkisstjórnina fellt

atli ísleifsson skrifar
Rúmenski forsætisráðherrann Sorin Grindeanu.
Rúmenski forsætisráðherrann Sorin Grindeanu. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Rúmeníu hefur hvatt mótmælendur í landinu til að róa sig og leggja traust sitt á ríkisstjórnina. Vantraust á hendur ríkisstjórninni var fellt í rúmenska þinginu fyrr í dag.

Mörg hundruð þúsund manns hafa komið saman til mótmæla á götum rúmenskra bæja og borga síðustu vikuna til að mótmæla tilskipun stjórnarinnar sem myndi fela í sér að fjölmargir stjórnmála- og embættismenn myndu komast hjá ákæru um spillingarbrot. Tilskipunin hefur þegar verið afturkölluð, en þrátt fyrir það hafa mótmælin haldið áfram.

„Ég bið ykkur að treysta þessari ríkisstjórn […] Við skuldum fólkinu, sem veittu okkur umboð í síðustu kosningum, að stýra áfram,“ sagði forsætisráðherrann Sorin Grindeanu í þingsal í morgun.

Vantrausttillaga stjórnarandstöðuflokksins PNL á hendur vinstristjórn Jafnaðarmannaflokksins og stuðningsflokks hans var tekin fyrir í morgun. Þingmenn beggja stjórnarflokka, auk flokks Ungverja, UDMR, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, en saman eru flokkarnir með 61 prósent þingmanna. Helmingur þingmanna, 233 þingmenn, hefði þurft að greiða atkvæði með tillögunni til að fella stjórnina.

Í frétt Afronbladet segir að um tvö þúsund stuðningsmenn stjórnarinnar hafi komið saman fyrir utan þinghúsið í höfuðborginni Búkarest til að lýsa yfir stuðningi við stjórnina. Þeir telja margir forsetann Klaus Iohannis vera landráðamann eftir að hann sagði að afturköllun tilskipunarinnar og mögulegar afsagnir ráðherra ekki vera næg viðbrögð af hálfu ríkisstjórnar.

Samkvæmt flestum mælikvörðum er Rúmenía það aðildarríki ESB þar sem mest spilling ríkir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×