Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að það sé ekki góð nýting á fjármunum að senda sjúklinga til útlanda í aðgerðir á kostnað skattgreiðenda þótt þeir eigi rétt á því samkvæmt Evróputilskipun um bið eftir aðgerðum.
Hafi sjúklingur í ESB eða EES-ríki þurft að bíða 90 daga eða lengur á biðlista eftir lækningu getur hann farið til annars ríkis EES-svæðinu fengið meðferð þar og síðan sent reikninginn til ríkissjóðs í heimalandinu. Þessi tilskipun var innleidd í lög hér á landi og á grundvelli hennar hefur stór hópur sjúklinga leitað sér lækninga erlendis á kostnað skattgreiðenda. Síðast í þessari viku fóru fimm sjúklingar ásamt fylgdarmönnum á vegum Klíníkurinnar í Ármúla til Halmastad í Svíþjóðar í liðskiptiaðgerðir.
Biðtími eftir liðskiptiaðgerðum á Landspítalanum er núna 6,2 mánuðir eftir að hafa verið 15 mánuðir í fyrra. Sú öfugsnúna staða er uppi í heilbrigðiskerfinu að á meðan 658 sjúklingar bíða eftir að komast í liðskiptiaðgerð á Landspítalanum fara aðrir út á kostnað skattgreiðenda á grundvelli biðtímatilskipunarinnar. Allur kostnaður er greiddur. Meðferðarkostnaður, flug, uppihald og kostnaður vegna aðstoðarmanns samkvæmt bréfi Sjúkratrygginga Íslands til Klíníkurinnar og eins sjúklinganna sem fór í aðgerð í Halmstad.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að það sé stjórnvalda að svara því hvort kerfið sé gott því tilskipunin var innleidd hér í lög vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Hann telur það hins vegar ekki góða meðferð skattfjár að þessar aðgerðir séu gerðar erlendis.
„Við teljum að það sé ekki góð nýting á fjármunum að fólk fari erlendis í aðgerðir sem það á að geta farið í hér. Við teljum reyndar einnig að það sé heppilegri og betri nýting fjármuna að efla sérhæfða þjónustu og aðgerðir á Landspítalanum. Við erum að sinna sólarhingsþjónustu og bráðaþjónustu. Við verðum alltaf að sinna þessari þjónustu. Það er ekki gott í okkar litla landi að vera að dreifa þessari sérþekkingu mjög víða,“ segir Páll.
Sjötíu manns bætast á biðlista eftir liðskiptiaðgerðum í hverjum mánuði. Þessi fjöldi mun bara aukast á næstunni vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar og breyttrar aldursamsetningar hennar.
