Erlent

Stórauka öryggisgæslu vegna forsetakosninganna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Raila Odinga hefur beðið stuðningsmenn sína um að sniðganga kosningarnar.
Raila Odinga hefur beðið stuðningsmenn sína um að sniðganga kosningarnar. Vísir/Getty
Mikil spenna og aukin öryggisgæsla er nú í Kenýa þar sem verið er að endurtaka forsetakosningar sem þar fóru fram á dögunum. Niðurstöður fyrstu atkvæðagreiðslunnar voru véfengdar og var ákveðið að kjósa að nýju.

Uhuru Kenyatta, sitjandi forseti sem sækist eftir endurkjöri hvetur fólk til að mæta á kjörstað en Raila Odinga leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem bauð sig fram í fyrri umferðinni, hefur dregið framboð sitt til baka og hvetur fólk til að halda sig heima.

Kenyatta var úrskurðaður sigurvegari fyrri atkvæðagreiðslunnar en komið hefur í ljós að ýmislegt var athugavert við framkvæmdina og því var ákveðið að kjósa að nýju.

Ef marka má útgönguspár virðist kjörsóknin vera umtalsvert minni núna en í síðustu kosningum. Stjórnarandstæðingar reyndu hvað þeir gátu í morgun til að meina fólki aðgang að kjörstöðum í fátækrahverfum höfuðborgarinnar, Naíróbí.

Greip lögreglan þá til táragass sem hún varpaði inn í hópinn. Varð það til þess að dreifa mannfjöldanum. Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir hafa kallað fjölmarga starfsmenn sína til baka því þær telja sig ekki geta tryggt öryggi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×