Logi Gunnarsson, leikjahæsti landsliðsmaður Íslands á Eurobasket í ár er klár í fyrsta leikinn á móti Grikkjum í dag.
„Við áttum góða æfingu í morgun þar sem við fórum yfir ákveðna hluti sem við ætlum að gera gegn Grikkjunum. Svo erum við aftur á æfingu í kvöld þar sem við förum í skot og líka smá taktík en við erum vel undirbúnir," sagði reynsluboltinn Logi Gunnarsson í samtali við Arnar Björnsson.
Grikkir eru tvöfaldir Evrópumeistarar og lið sem oftast langt í Evrópukeppninni. Er hægt að vinna þetta gríska lið?
„Já við viljum meina það. Eins og við höfum alltaf gert og gerðum á síðasta móti þurfum við að vera ákveðnir og spila kröftugan bolta því að þá er allt mögulegt. Við trúum því að við getum unnið þessar þjóðir sem við erum að mæta,“ sagði Logi.
Hver er munurinn á þessu Evrópumóti og fyrir tveimur árum í Berlín?
„Við höldum þessari sömu taktík, þessari ákefð í vörninni og erum að tvöfalda mikið eins og við höfum verið að gera á þessar stærri þjóðir. Þeir eru ekki vanir því eru vanari því að vera að spila á móti leikmönnum sem eru jafn stórir. Við höldum þeirri taktík áfram og erum með pressu á boltann og látum mótherjana finna svolítið fyrir því. Þeim finnst óþægilegt að vera með boltann og marga leikmenn í kringum sig. Það er svona okkar taktík,“ sagði Logi.
Logi er sammála því að andlegi þátturinn sé öðruvísi núna en hann var fyrir tveimur árum?
„Já ég held það. Auðvitað að þegar maður er búinn að gera eitthvað einu sinni þá er það öðruvísi að gera það í annað skiptið. Það er meiri ró yfir okkur og ekki eins mikil spenna. Maður er búinn að spila við þessar stjörnur einu sinni. Þó maður verði að halda í þessa spennu og ákefð og vera spenntur fyrir verkefninu þá er ákveðin ró yfir okkur miðað við að vera að gera þetta í fyrsta skiptið“.
Er þetta gaman? „Þetta er náttúrulega það skemmtilegasta sem þú gerir og maður æfir alla ævi fyrir þetta,“ sagði Logi að lokum.
Körfubolti