Fótbolti

Totti hættur við að verða þjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francesco Totti með fjölskyldu sinni.
Francesco Totti með fjölskyldu sinni. Vísir/Getty
Ítalinn Francesco Totti setti knattspyrnuskóna upp á hillu síðasta vor en það leit út fyrir að þessu goðsögn í ítalskri knattspyrnu ætlaði að snúa sér að þjálfun. Nú hefur það breyst.

Francesco Totti var skráður á þjálfaranámskeið hjá ítalska þjálfarafélaginu en félagið sendi frá sér tilkynningu um að Totti sé hættur við og ætli að leggja þjálfaramenntunina sína á ís.

Totti lék sinn síðasta leik með Roma síðasta vor en hann var í 24 ár hjá félaginu.  Hann hefur síðan fengið starf á skrifstofunni hjá félaginu.

„Francesco Totti sýndi okkur að hann er bæði mikill maður innan sem utan vallar. Hann sá fyrir sér að geta ekki sinnt námskeiðinu sem skyldi og af virðingu fyrir kollegum sínum og námskeiðshöldurum þá ákvað hann að hætta við að taka þátt í námskeiðinu. Við vonum að þetta sé bara tímabundið hjá honum og að hann taki þátt í öðru námskeið í framtíðinni,“ stóð í tilkynningunni frá ítalska þjálfarasambandinu.

Simone Perrotta kemur inn á námskeiðið í stað Francesco Totti en þeir urðu einmitt heimsmeistarar saman með ítalska landsliðinu árið 2006.

Francesco Totti ætlar að einbeita sér að því að vinna fyrir Roma og sinna fjölskyldunni. Þjálfaraferillinn þarf því að bíða.

Totti átti magnaðan ferill en hann skoraði 307 mörk í 786 leikjum með Roma eftir að hafa leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið aðeins sextán ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×