Innlent

Rúmlega helmingur vill að Katrín verði forsætisráðherra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir er vinsælust stjórnmálaleiðtoga.
Katrín Jakobsdóttir er vinsælust stjórnmálaleiðtoga. Vísir/Hanna
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, er vinsælasta forsætisráðherraefni þjóðarinnar ef marka má nýja könnun Félagsvísindastofnunnar. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að um 46% þeirra sem tóku afstöðu vilji sjá Katrínu á forsætisráðherrastóli eftir þingkosningarnar þann 28. október næstkomandi.

Helmingi færri, eða um 24% vilja að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði áfram forsætisráðherra eftir kosningarnar. Þá segjast 10% aðspurðra að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fá að spreyta sig aftur í því embætti. Könnun tók aðeins til þeirra þriggja.

Könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið var bæði síma- og netkönnun. Alls svöruðu 908 manns spurningum stofnunarinnar en þeirra á meðal var einnig spurning um hvert þessara þriggja leiðtoga fólki þætti líklegast að yrði forsætisráðherra eftir kosningarnar. 48% töldu að það yrði Katrín, 35% gera ráð fyrir því að það verði Bjarni og 5% að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra að kosningunum loknum.

Þá nýtur Katrín meiri stuðnings kvenna en karla ásamt því að höfða betur til yngri kynslóðarinnar. 59% kvenna styðja Katrínu og 54% fólks á aldrinum 18-29 ára. Bjarni höfðar meira til fólks yfir sextugu en 30% í þeim aldursflokki vilja hann sem forsætisráðherra samanborið við 17% í yngri aldursflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×