Erlent

Ríkjabandalag gegn loftslagsbreytingum eflist

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump sagðist vinna fyrir Pittsburgh en ekki París. Mótmælandi bendir honum á að báðar borgir séu á plánetunni jörð.
Trump sagðist vinna fyrir Pittsburgh en ekki París. Mótmælandi bendir honum á að báðar borgir séu á plánetunni jörð. Vísir/EPA
Þrettán ríki Bandaríkjanna hafa nú lýst því yfir að þau muni gangast undir skilmála Parísarsamkomulagsins eftir að Donald Trump forseti tilkynnti að hann ætli að draga landið frá samningnum sem  er ætlað að verjast loftslagsbreytingum.

Virginía er nýjasta ríkið sem bætist í hóp ríkjabandalagsins sem ætlar sér að taka slaginn gegn hnattrænni hlýnun jafnvel þó að alríkisstjórnin sé gengin úr skaftinu. Terry McAuliffe, ríkisstjóri Virginíu sem kemur úr röðum Demókrataflokksins, tilkynnti þetta í dag samkvæmt frétt NBC-fréttastofunnar.

Auk Virginíu hafa Kalifornía, Connecticut, Delaware, Havaí, Massachusetts, Minnesota, New York, Oregon, Púertó Ríkó, Rhode Island, Vermont og Washington myndað loftslagsbandalagið.

Tvö ríki repúblikana í hópnum

Ríkin í bandalaginu einsetja sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25-28% miðað við losunina árið 2005 fyrir árið 2025 og að ná eða fara fram úr þeim markmiðum sem sett voru í Hreinu orkuáætlun Baracks Obama, fyrrverandi forseta, sem stjórn Trump er nú að draga til baka.

Einstakar borgir hafa einnig lýst því að þær ætli að vinna að markmiðum Parísarssamkomulagsins, þar á meðal New York, Chicago, Los Angesls og Philadelphia, samkvæmt frétt CBS-fréttastofunnar.

Ríkisstjórar allra ríkjanna eru demókratar utan tveggja, Massachusetts og Vermont þar sem repúblikanar ráða ríkjum.


Tengdar fréttir

Viðbrögð leiðtoga við ákvörðun Trumps

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og sá sem stóð að baki samkomulaginu, gagnrýnir Trump harðlega og segir hann vera að "hafna framtíðinni.“

Bandaríkin hætta aðild að Parísarsamkomulaginu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á sjöunda tímanum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld að Bandaríkin hygðust draga sig út úr Parísarsamkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×