Erlent

Tillerson segir að reka eigi Kínverja úr Suður-Kínahafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínverjar héldu nýverið umfangsmiklar heræfingar í Suður-Kínahafi.
Kínverjar héldu nýverið umfangsmiklar heræfingar í Suður-Kínahafi. Vísir/AFP
Rex Tillerson, utanríkisráðherraefni Donald Trump, segir að reka eigi Kínverja úr Suður-Kínahafi. Þá eigi að neita þeim aðgangi að eyjum sem stjórnvöld í Kína hafa byggt í hafinu. Hann líkti tilkalli Kína til hafsins við það hvernig Rússland „tók Krímskaga“ af Úkraínu. Ummælin munu líklega valda reiði í Peking.

Þó nokkur lönd gera tilkall til mismunandi hluta Suður-Kínahafs, en Kínverjar gera tilkall til nánast alls svæðisins og eyja og rifa sem þar má finna.

Alþjóðagerðardómurinn í Haag hefur úrskurðað að tilkall Kína til hafsvæðisins sé ólöglegt. Stjórnvöld í Kína sögðust þó ekki ætla að sætta sig við úrskurðinn og hunsuðu hann.

Tillerson mætti á öldungaþing Bandaríkjanna í dag, þar sem þingmenn spurðu hann spjörunum úr. Öldungadeildin þarf að staðfesta tilnefningu Trump áður en Tillerson getur orðið ráðherra. Þar var hann spurður hvort hann styddi strangari utanríkisstefnu varðandi Kína.

„Við munum þurfa að senda Kína sterk skilaboð um að, fyrst, eyjusmíðin hættir og, númer tvö, aðgangur ykkar að eyjunum verður ekki leyfður lengur,“ sagði Tillerson samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Tillerson, sem var áður yfirmaður Exxon Mobil olíufyrirtækisins, fór ekki nánar út í hvernig hægt væri að koma Kínverjum frá Suður-Kínahafi. Eyjurnar hafa verið vígbúnar og herstöðvar og flugvellir hafa verið byggðir á þeim.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína segir að ríkið hafi rétt á því að aðhafast á „yfirráðasvæði“ þeirra í Suður-Kínahafi. Það sé óumdeilanlegt.

Tillerson ítrekaði einnig stuðning Bandaríkjanna við Taívan, sem yfirvöld í Peking líta á sem sína eign.

Hér má sjá yfirheyrslu Tillerson. Hann byrjar að tala um Kína strax eftir tvær mínútur.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×