Erlent

María reif þakið af húsi forsætisráðherrans

Stefán Ó. Jónsson skrifar
María áður en hún gekk á land á Dóminíku.
María áður en hún gekk á land á Dóminíku. Vísir/AP
Forsætisráðherra Dóminíku lýsir eyðileggingu fellibyljarins Maríu sem algjörri tortímingu. Skömmu áður en María gekk á land á eyjunni varð hún að fimmta stigs fellibyl - jafn öflugum og Irma sem gekk þar yfir í upphafi mánaðarins. „Við erum búin að tapa öllu sem peningar geta keypt,“ sagði forsætisráðherrann Roosevelt Skerrit í Facebook-færslu í gær.

Skömmu áður hafði hann lýst því hvernig vindstyrkurinn hafði rifið þakið af húsi hans og að hann bæði Maríu um vægð. Honum var bjargað skömmu síðar. Mest óttast forsætisráðherrann flóð og aurskriður í kjölfar rigninganna sem Maríu hafa fylgt. Þau gætu valdið miklu tjóni og mannskaða.

Færsla forsætisráðherrans í gærkvöldi.Facebook
María fetar nokkurn veginn sömu slóð og Irma gerði en Hléborðseyjar fundu fyrst fyrir Maríu. Dóminíka er syðsta eyjan í klasanum. Eftir að María gekk yfir eyjuna minnkaði styrkur henni og er hún fjórða stigs fellibylur sem stendur. Þó telja veðurfræðingur að styrkur hennar gæti aukist er hún gengur í átt að Púertó Ríkó og Jómfrúareyjum.

Forsætisráðherra Dóminíku lýsir tjóninu á eyjunni sem algjörri tortímingu og að hann sé gáttaður á umfangi eyðileggingarinnar.

Blaðamaður á eyjunni segir í samtali við BBC að ástandið hefði versnað „mikið, hratt. Við vitum ekki ennþá hvert ástandið verður eftir að það lægir. Það eina sem ég get sagt er að þetta lítur ekki vel út fyrir Dóminíku sem stendur,“ sagði blaðamaðurinn Curtis Matthew.

Búið er að loka öllum höfnum og flugvöllum á eyjunni og hefur íbúum strandbæja verið gert að forða sér í neyðarskýli.

Að minnsta kosti 84 fórust þegar Irma gekk yfir Karíbahafið og suðaustanverð Bandaríkin. Meira en helmingur þeirra fórst í Karíbahafi. Óttast er að Maria muni mögulega þeyta upp braki og öðrum lausamunum og ekki er talið ólíklegt að meira manntjón verði af völdum Mariu en Irmu.

Sjá má feril Maríu á gagnvirku korti hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

María ógnar fórnarlömbum Irmu

Fellibylurinn María hefur náð styrk fjórða stigs fellibyls. Stefnir María nú á eyjur í Karíba-hafinu sem sumar hverjar urðu illa úti eftir að fellibylurinn Irma gekk þar á land fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×