Erlent

Odinga kærir niðurstöðu forsetakosninganna í Kenýa

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Sæunn Gísladóttir skrifa
Odinga fékk 45 prósent greiddra atkvæða en sitjandi forseti Kanyatta hlaut 54 prósent atkvæða.
Odinga fékk 45 prósent greiddra atkvæða en sitjandi forseti Kanyatta hlaut 54 prósent atkvæða. Vísir/Getty
Raila Odinga, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Kenýa, mun kæra niðurstöður forsetakosninganna sem fóru fram í síðustu viku. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Óháðir eftirlitsaðilar hafa áður sagt að ekkert undarlegt hafi farið fram við framkvæmd kosninganna. Odinga fékk 45 prósent greiddra atkvæða en sitjandi forseti Kanyatta hlaut 54 prósent atkvæða. Odinga vill meina að sigrinum hafi verið stolið af sér.

Haft var eftir Odinga að stjórnarandstaðan hefði sankað að sér sönnunargögnum sem beindu til þess að ekki hefði allt verið með felldu við framkvæmd kosninganna. Telur Odinga og stuðningsmenn hans að þessi sönnunargögn muni koma að góðum notum þegar málið fer fyrir dómstóla.

„Við höfum ákveðið að fara með málið fyrir hæstarétt og sýna fram á að tölvutækni hafi verið notuð til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna,“ sagði Odinga.

Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er einn þeirra sem hvatt hefur Odinga til að leita réttar síns hjá dómstólum og krefjast breytinga. Þá hefur Odinga einnig hvatt til mótmæla.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×