Innlent

Skólamatur og gæsla dýrust í Garðabæ en ódýrust í Skagafirði

atli ísleifsson skrifar
Hlutfallslega hækkar verð á hádegismat grunnskólabarna mest í Reykjavík milli ára eða um 30 prósent.
Hlutfallslega hækkar verð á hádegismat grunnskólabarna mest í Reykjavík milli ára eða um 30 prósent. Vísir/Pjeturanton
Allt að 51 prósenta munur er á kostnaði foreldra við hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna meðal stærstu sveitarfélaga landsins samkvæmt nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ.

Í frétt á vef sambandsins kemur fram að gjald fyrir hádegisverð, þriggja tíma síðdegisvistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans sé hæst í Garðabæ, eða 36.484 krónur á mánuði, en lægst í Sveitarfélaginu Skagafirði, eða 24.234 krónur.

„Heildarkostnaður foreldra vegna þessarar þjónustu hefur hækkað í öllum 15 sveitarfélögunum sem til skoðunar eru undanfarið ár. Mesta hækkunin milli ára er í Reykjavík, þar sem heildarkostnaður vegna þessarar þjónustu hækkar úr kr. 23.530 í kr. 26.100 á mánuði eða um 11% sem er að mestu tilkomið vegna hækkunar á hádegisverði. Minnsta hækkunin milli ára er hjá Ísafjarðarbæ þar sem heildarkostnaður foreldra fer úr 31.267 kr. á mánuði í kr. 31.603 kr. sem er 1% hækkun.“

ASÍ
Allt að 41 prósent verðmunur á hádegisverði Ef einungis er litið til gjaldskrár fyrir hádegisverð sem í boði er fyrir grunnskólabörn á öllu aldri má sjá að allt að 41 prósenta verðmun milli sveitarfélaga. „Hæsta verðið er á Ísafirði þar sem máltíðin kostar 492 kr. eða 10.332 krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir 21. vikum degi í mánuði. Lægsta verðið er hins vegar í Sveitarfélaginu Árborg, 349 kr. máltíðin eða 7.329 krónur á mánuði.“

Hlutfallslega hækkar verð á hádegismat grunnskólabarna mest í Reykjavík milli ára eða um 30 prósent, þar sem máltíðin fór úr 338 krónum í 441 krónur.

Nánar má skoða niðurstöður rannsóknarinnar í frétt ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×