„Þetta er afskaplega snúin staða, það er mjög erfitt að segja til um hvað gerist næst. Fólk er ennþá bara að meðtaka þetta. þessar fréttir komu á miðnætti í gær. Ég er ennþá bara í talsverðu áfalli eftir að hafa heyrt þetta. Ég átti ekki von á þessu, ekki í þessari mynd þótt að mér finnist þetta rétt ákvörðun hjá Bjartri framtíð,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við Vísi.
Bæði Þórhildur Sunna og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segja að rökrétt næsta skref sé að fólk tali saman á þingi og rjúki ekki til kosninga.
„Við höfum allavega ákveðið að við erum opin fyrir því að tala við alla og sjá hvað er rétt í stöðunni að gera. Við viljum ekki rjúka af stað og gefast upp strax og segja kosningar strax,“ segir Þórhildur Sunna.
Mikilvægt að afgreiða fjárlög
„Okkur finnst eðlilegt núna þegar staðan er jafn óviss og hún er að við fyrst prófum bara að tala saman og athuga hvort það sé flötur fyrir þessu fimm flokka samstarfi eða minnihlutastjórn eða einhverju slíku. Það er náttúrulega fjárlagavinna fram undan. Það var rosalega slæmt í fyrra að hafa svona stuttan tíma og það er líka verra að ætla að vinna fjárlög án þess að það sé meirihluti með skýrt umboð til að vinna þess vinnu. þannig að þetta er afskaplega snúin staða, það er mjög erfitt að segja til um hvað gerist næst.“Þórhildur Sunna sagði í Kastljósi í gærkvöldi að rökstuddur grunur væri uppi um að dómsmálaráðherra hefði misbeitt valdi sínu. Hún segir að Sjálfstæðismenn villi fyrir umræðunni um uppreist æru.
„Mér sýnist þau bara vera í bullandi afneitun um sinn þátt í þessu máli. Þau þurfa að horfast í augu við eigin gjörðir og þau neita gjörsamlega að gera það. Þau skýla sér á bak við upplýsingalög og annað slíkt sem mér finnst ótrúlegt í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndar. Mér finnst þau vera að villa um fyrir umræðunni.“
Birgitta ræddi málin í Bítinu á Bylgjunni í morgun.