Erlent

Duterte segist hafa drepið mann sem táningur

Atli Ísleifsson skrifar
Rodrigo Duterte er nú staddur í víetnömsku borginni Danang þar sem fundur APEC, samstarfsstofnunar Asíu- og Kyrrahafsríkja, fer fram.
Rodrigo Duterte er nú staddur í víetnömsku borginni Danang þar sem fundur APEC, samstarfsstofnunar Asíu- og Kyrrahafsríkja, fer fram. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segist hafa stungið mann til bana þegar hann var á táningsaldri. Frá þessu greindi Duterte í ræðu í víetnömsku borginni Danang þar sem fundur APEC, samstarfsstofnunar Asíu- og Kyrrahafsríkja, fer nú fram. CNN greinir frá málinu.

„Þegar ég var sextán ára var ég þegar búinn að drepa mann. Alvöru mann, slagsmál, hnífstunga. Ég var bara sextán ára,“ sagði Duterte. „Þetta var þegar ég var sextán ára og bara þar sem við litum hvor á annan.“

Forsetinn hótaði jafnframt að slá til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna sem hafa mannréttindamál á sinni könnu, ef þeir yrðu á vegi hans. Sagðist hann ekki hræddur við að fara í fangelsi þar sem hann hafi á sínum yngri árum verið inni í og úti úr fangelsum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forsetinn lætur umdeild ummæli falla. Duterte var kjörinn forseti landsins á síðasta ári, en hann er þekktur fyrir aðgerðir sínar í stríðinu gegn fíkniefnum og er talið að lögregla hafi drepið þúsundir fíkla, smyglara og sölumanna.

Þá hafa fjölmargir verið drepnir án dóms og laga af glæpagengjum auk þess sem saklaust fólk hefur látið lífið í átökum lögreglu og glæpagengja.

Mannréttindasamtök hafa ítrekað gagnrýnt þær þúsundir aftaka sem framkvæmdar eru í landinu. Þannig geta lögreglumenn, sem og aðrir óbreyttir borgarar, tekið fólk af lífi fyrir það eitt að vera grunað um að hafa einhvern tímann neytt fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×