Innlent

Aukin rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum bendir til hlaups

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Jökulsá á Fjöllum.
Jökulsá á Fjöllum. Mynd/Vegagerðin
Að sögn Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings bendir hækkuð rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum, mórauður litur hennar og jarðhitalykt af ánni til þess að um jökulhlaup sé að ræða.

Síðustu tvær vikur hefur rafleiðni í ánni farið hækkandi og hafa mælingar sýnt fram á að hún sé tvöfalt meiri en eðlilegt er fyrir þennan árstíma.

Ekki er vitað hver upptökin eru en samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands er líklega um að ræða jarðhitavatnsleka undan jökli.

Ármann fullyrti í samtali við Vísi að um tvenn hugsanleg upptök gæti verið að ræða; ýmist Bárðarbungu eða Kverkfjöll. Til þess að ganga úr skugga um upptökin þarf hins vegar að fara á vettvang og kanna aðstæður.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.
Að sögn Ármanns er ekki óalgengt að gengissig í Kverkfjöllum orsaki jökulhlaup. „Síðast hljóp þarna fyrir fjórum eða fimm árum og tók hlaupið með sér göngubrú sem Vatnajökulsþjóðgarður hafði nýverið byggt yfir ána,“ segir Ármann og vísar hér til lítils hlaups sem varð í ánni í ágúst 2013.

Aðspurður um hvort algengt sé að hlaup verði í jökulám án þess að vera afleiðing eldgosa segir Ármann að svo sé og bendir á að slíkt gerist til að mynda reglulega í Grímsvötnum.

Ármann telur að hlaupið væri að öllum líkindum stærra ef upptökin væru í Bárðarbungu.

„En svo er það hins vegar Bárðarbunga og hún er búin að vera að ybba gogg. En ég myndi halda að ef þetta væri að koma frá henni þá væri þetta miklu stærra hlaup. En það er ómögulegt að segja til um þetta, það er ekki hægt að sjá þetta nema að fljúga upp eftir og því skýrist þetta sennilega ekki fyrr en á morgun,“ segir Ármann.

En getur jarðhitavatnsleki á borð við þennan verið undanfari frekari jarðhræringa?

„Það getur það ef þetta er að koma úr Bárðarbungu. Þá getur þetta verið undanfari meiri viðburða. En ef þetta er að koma úr Kverkfjöllum þá er þetta bara hefðbundið gengissig eins og kallað er. Svo þarf að vera á varðbergi gagnvart skjálftum, ef það fer af stað einhver óvenjuleg skjálftahrina, þá getur verið að eitthvað sé að fara að gerast.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×