Innlent

Geirsgötu lokað í fjóra daga frá föstudagsmorgni

Heimir Már Pétursson skrifar
Ein mesta umferðargata borgarinnar, Geirsgata, verður lokuð í fjóra daga frá klukkan níu að morgni næst komandi föstudags til mánudags. Gerð verður ný hjáleið á Geirsgötu við Hafnartorg svo hægt sé að byggja hluta bílakjallara sem mun ná allt frá Ingólfstorgi að Hörpu.

Á loftmyndum í þessari frétt Stöðvar 2 sjáum við framkvæmdasvæðið og núverandi hjáleið um Geirsgötuna ásamt hluta Geirsgötunnar eins og hún mun liggja í framtíðinni yfir hluta bílakjallarans. En þegar framkvæmdum lýkur verða til ný gatnamót eins og sést á meðfylgjandi mynd með útsýni frá Arnarhóli.

þegar framkvæmdum lýkur verða til ný gatnamót með útsýni frá Arnarhóli.Grafík/Stöð 2
Nýja gatan verður með tveimur akreinum í báðar áttir með byggingar á Hafnartorgi á aðra hönd og byggingar á Hörpureitnum á hina. Á korti sjáum við merkt með rauðum lit hvar Geirsgatan verður lokuð allt frá klukkan 09:00 á föstudagsmorgun til mánudags.

Lokað verður frá gatnamótum Tryggvagötu og Geirsgötu að Hörpu en hægt verður að fara um Tryggvagötu, Hverfisgötu og Ingólfsstræti niður á Skúlagötu og þaðan út á Sæbrautina úr vestri á meðan. 

En skipulagsyfirvöld beina því til fólks að fara einnig um Hringbrautina til að létta umferðina um miðborgina þar til Geirsgatan verður opnuð aftur. Og þegar nýr hluti hennar verður að fullu tilbúinn færist umferð á svæðinu loksins í eðlilegt horf.

Gerð verður ný hjáleið á Geirsgötu við Hafnartorg svo hægt sé að byggja hluta bílakjallara sem mun ná allt frá Ingólfstorgi að Hörpu.Grafík/Stöð2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×