Erlent

Ólíkar skoðanir á breytingum hjá Twitter

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jack Dorsey, forstjóri Twitter. Fréttablaðið/EPA
Jack Dorsey, forstjóri Twitter. Fréttablaðið/EPA
Samfélagsmiðillinn Twitter hefur ákveðið að prófa að auka hámarksslagafjölda tísta úr 140 í 280. Einungis nokkrir útvaldir geta nú tíst 280 slögum og hafa breytingarnar lagst misvel í fólk. Jafnt þekktir Íslendingar sem útlendingar hafa tjáð sig á miðlinum um málið.

Hörður Ágústsson, kenndur við Macland, sagði til dæmis að hann myndi eingöngu nota 140 slög þrátt fyrir ætlaða fjölgun í 280. Þá spurði íslenskuprófessorinn Ármann Jakobsson fylgjendur sína hver mesta hættan væri við fjölgun slaga. Hvort mest hætta væri á að Twitter yrði önnur Facebook eða hvað annað gæti gerst.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson hæddist að breytingunni. „Nú get ég loksins sagt ykkur söguna af uppáhaldsfrænda mínum og þegar hann fann fimmhundruðkall,“ tísti hann.

Sjónvarpskonan Ellen DeGeneres virðist ekki ein hinna útvöldu. „Ég er svo spennt yfir að vera hluti af 280 slaga hópi Twitter. Þetta er mér sannur heiður og forréttindi. Ég vil þakka fráb,“ tísti DeGeneres sem gat ekki klárað tíst sitt, líklegast þar sem hún má enn bara tísta 140 slögum.

Jack Dorsey, forstjóri Twitter, birti í gær færslu þar sem hann sagðist hafa búist við, og væri ánægður með, gagnrýnina á breytinguna. Það sem skipti máli nú væri að sýna hvers vegna breytingin væri mikilvæg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×