Innlent

RÚV mátti nota ljóð þjóðsöngsins í HM-kynningu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kynning RÚV birtist í tengslum við för íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi í sumar.
Kynning RÚV birtist í tengslum við för íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi í sumar. Vísir/Kolbeinn Tumi
Upplestur þjóðþekktra einstaklinga á fyrsta erindi þjóðsöngsins í dagskrárkynningu Ríkisútvarpsins fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar telst ekki flutningur á söngnum og því braut það ekki gegn lögum um hann. Þetta er ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna fyrirspurnar um notkun þjóðsöngsins í kynningunni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var ein þeirra sem las línu úr fyrsta erindi þjóðsöngsins í dagskrárkynningunni sem birtist í tengslum við för íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi í sumar. Í kjölfarið barst forsætisráðuneytinu fyrirspurn um hvort að RÚV hefði brotið lög um þjóðsönginn með kynningunni.

Í lögunum er kveðið á um bann við því að þjóðsöngurinn sé nýttur í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Vegna þess að forsætisráðherra tók þátt í kynningunni var fjármála- og efnahagsráðherra falið að svara fyrirspurninni.

RÚV réttlæti notkun sína á þjóðsöngnum með því að ekki hafi verið um eiginlegan flutning á honum að ræða í skilningi laga. Kynningin hefði verið bundin við ljóð Matthíasar Jochumssonar „Ó guðs vors land“ og lagið hafi ekki verið haft með. Notkun lagsins hafi heldur ekki verið í auglýsingaskyni. Í lögum um RÚV væri kveðið á um að tilkynningar frá því um efni teldist ekki vera auglýsing.

Fjármálaráðuneytið féllst á þau rök RÚV að ekki hafi verið um eiginlegan flutning á þjóðsöngnum að ræða, aðeins upplestur á fyrsta erindi ljóðsins. RÚV hafi þannig ekki brotið gegn lögum um sönginn. Í því ljósi tók ráðuneytið ekki afstöðu til þess hvort að hann hafi verið nýttur í auglýsinga- eða viðskiptaskyni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×