Erlent

Möguleg sprengja send á veitingastað Roberts de Niro

Kjartan Kjartansson skrifar
De Niro hefur ekki haldið aftur af sér í gagnrýni á Trump forseta. Nokkrir gagnrýnendur forsetans hafa fengið sprengjur sendar í vikunni.
De Niro hefur ekki haldið aftur af sér í gagnrýni á Trump forseta. Nokkrir gagnrýnendur forsetans hafa fengið sprengjur sendar í vikunni. Vísir/EPA
Lögreglan í New York rannsakar nú grunsamlegan pakka sem var sendur á veitingastað í eigu leikarans Roberts de Niro. Sprengjur hafa verið sendar nokkrum þekktum demókrötum og gagnrýnendum Donalds Trump forseta undanfarna daga.

De Niro hefur verið gagnrýninn á Trump forseta og kallaði hann eitt sinn „þjóðarhörmung“. Þá vakti athygli þegar leikarinn bölvaði forsetanum á Tony-verðlaunahátíðinni í júní. „Ég hef aðeins eitt að segja: Svei Trump!“ sagði de Niro þá.

Reynist pakkinn sem var sendur á Tribeca Grill-veitingastað leikarans vera sprengja væri hún sú áttunda sem hefur fundist í þessari viku. Barack Obama, fyrrverandi forseti, Clinton-hjónin og fleiri áberandi demókratar hafa fengið sprengjur sendar. Þá var bréfsprengja send George Soros, frjálslynda milljarðamæringnum, sem hefur verið grýla í augum hægriöfgamanna.

Að sögn lögreglu var veitingastaðurinn mannlaus þegar sendingin barst snemma morguns, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

Voveiflegir atburðir í Bandaríkjunum

Bréfsprengjur hafa í vikunni verið sendar á áhrifamenn innan bandaríska vinstrisins og á fréttastofu CNN. Trump forseti ítrekað gagnrýnt skotmörkin. Forsetinn fordæmdi árásina harðlega og sagði hana svívirðilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×