Innlent

Þyrlan var að störfum til þrjú í nótt vegna flugvélarinnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Karl og kona sem voru í flugvél sem fór niður í Kinnarfjöllum seint í gær sluppu heil á húfi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Karl og kona sem voru í flugvél sem fór niður í Kinnarfjöllum seint í gær sluppu heil á húfi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
„Allir sluppu heilir á húfi,“ segir Kolbrún Björg Jónsdóttir hjá lögreglunni á Akureyri um flugatvikið í Kinnarfjöllum í gærkvöldi. Tveir farþegar voru í vélinni þegar hún fór niður, karl og kona, en Kolbrún gat ekki gefið frekari upplýsingar um líðan þeirra. Þau voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar, þar sem lent var klukkan 23:11 í gærkvöldi. Þyrlan var áfram að störfum fram á nótt vegna flugvélarinnar.

Tilkynning barst um að fjögurra sæta flugvél hafi brotlent í Kinnarfjöllum rétt norðan af Ljósavatni við Húsavík eða í fjöllunum á milli Akureyrar og Húsavíkur seint í gærkvöldi. Mjög kalt var á vettvangi en flugmenn fóru í loftið frá Akureyri á lítilli flugvél skömmu eftir útkallið og náðu að koma auga á fólkið. Gátu þeir kastað tjaldi og svefnpokum til fólksins úr flugvélinni.

Eins og kom fram á Vísi í gær voru tveir björgunarsveitarmenn, sem voru á svæðinu á eigin vegum, fyrstir á vettvang og hlúðu að fólkinu á meðan beðið var eftir þyrlunni.  Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að aðgerðirnar í gær hafi gengið mjög vel. Aðstæður á vettvangi voru góðar í gær, heiðskírt en mjög kalt.

Viðbragðsaðilar á leið á vettvangLögreglan Norðurlandi eystra
Fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa fóru með þyrlu Landhelgisgæslunnar norður og voru rannsóknarlögreglumenn frá Akureyri auk fulltrúa nefndarinnar á vettvangi. Ásgeir segir að eftir að fólkinu var komið á sjúkrahús hafi þyrlan aðstoðað við að koma þessum aðilum á vettvang.

„Þeir fóru með lögreglumenn og einhverja meðlimi rannsóknarnefndar aftur upp eftir, skilaði þeim svo af sér og var lent í Reykjavík um klukkan þrjú.“

Visir/MAP.is
Björgunaraðilar og viðbragðsaðilar voru kallaðir út í gær til aðstoðar en útkallið var svo afturkallað þegar fólkið var komið um borð í þyrluna. Einhverjir björgunarsveitarmenn voru þó komnir á vettvang.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni bárust neyðarboð til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í gegnum gervihnattaneyðarsendi. Gæslan hafði samband við flugumsjón á Akureyri, sem hafði samband við flugmann vélarinnar. Hann staðfesti að flugvélin hefði brotlent. Samkvæmt Lögreglunni á Norðurlandi eystra var aðgerðaráætlun vegna flugslysa virkjuð og aðgerðastjórn sett upp á Akureyri og Húsavík.

Vélin fór niður við Skálaárvatn á Kinnarfjöllum, suðvestur af Húsavík, um fimm kílómetra suðvestur af bænum Syðri-Leikskálaá.


Tengdar fréttir

Flugvél brotlenti í Kinnarfjöllum

Ekki er talið að alvarleg meiðsl hafi orðið á tveimur farþegum fjögurra sæta flugvélar sem brotlenti í Kinnarfjöllum rétt norðan af Ljósavatni við Húsavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×