Erlent

Blaðamaður talinn hafa verið myrtur á ræðismannaskrifstofu heimalands síns

Sylvía Hall skrifar
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan sendiráðið í Istanbúl eftir að fregnir bárust af hvarfi Khashoggi.
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan sendiráðið í Istanbúl eftir að fregnir bárust af hvarfi Khashoggi. Vísir/Getty
Tyrkneska lögreglan telur að Sádí-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið myrtur á ræðismannaskrifsstofu Sádi-arabíu í Istanbúl þar sem síðast sást til hans, en hann hefur verið týndur í fjóra daga. Khashoggi hafði farið þangað til þess að sækja um hjónavígsluleyfi fyrir sig og tyrkneska kærustu sína sem beið fyrir utan. 

Khashoggi hefur starfað sjálfstætt sem blaðamaður og verið búsettur í Washington undanfarið ár af ótta við ofsóknir vegna gagnrýni sinnar á stjórnarhætti í heimalandi sínu.

Þá starfaði hann einnig sem ráðgjafi Turki al-Faisal, fyrrum yfirmanns leyniþjónustu Sádí-Arabíu og sendiherra landsins í Bandaríkjunum og Bretlandi. Í kjölfar frétta af hvarfi hans hafa mannréttindasamtök hafa kallað eftir viðbrögðum frá yfirvöldum í Sádí-Arabíu vegna hvarfsins og vilja vita hvort hann sé í haldi þeirra. 

Talsmenn ræðismannsskrifstofunnar segja eftirlitsmyndavélar í byggingunni ekki til þess búnar að taka upp og því sé ómögulegt að skoða myndefni úr þeim. Þá hafnar skrifstofan þeim ásökunum að Khashoggi hafi verið haldið í byggingunni. 

Samkvæmt heimildarmönnum Reuters telur lögreglan í Tyrklandi að blaðamaðurinn hafi verið myrtur og morðið skipulagt fyrir fram og líkið hafi svo verið fært úr byggingunni. Yfirvöld í landinu hafa lýst því yfir að hvarf Khashoggi verði rannsakað og að hans verði leitað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×