Erlent

Segist þrátt fyrir allt vera rétti maðurinn til að leiða Facebook

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Á símafundi í dag svaraði Mark Zuckerberg spurningum blaðamanna.
Á símafundi í dag svaraði Mark Zuckerberg spurningum blaðamanna. Vísir/Getty
Á símafundi með blaðamönnum sagði Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, að hvorki hafi dregið úr notkun Facebook né hafi auglýsingasala dregist saman frá því hneykslið kom upp.

Að því er fram kemur á vef Reuters viðurkennir hann þó að ástandið sé alls ekki gott eftir að óviðkomandi aðilar komust yfir persónuupplýsingar um 87 milljóna Bandaríkjamanna. Það sé ekki gott að fólk sé óánægt með fyrirtækið.

Í samtali við blaðamenn sagði Zuckerberg að þrátt fyrir að axla ábyrgð á gagnalekanum væri hann ennþá rétti maðurinn til að veita fyrirtækinu forystu.

„Lífið snýst um að draga lærdóm af mistökum og í kjölfarið finna leið út úr vandræðunum,“ segir Zuckerberg.

Að sögn Zuckerbergs hefur engum verið sagt upp störfum í tengslum við hneykslið. Þá sé honum ekki kunnugt um það hvort krafa sé uppi á meðal stjórnarmanna um að hann stigi til hliðar sem forstjóri.

Zuckerberg ber vitni fyrir orku- og viðskiptanefnd fulltrúadeildar bandaríkjaþings 11 apríl næstkomandi vegna meintrar misnotkunar Cambridge Analitica á gögnum notenda Facebook.


Tengdar fréttir

Þetta er það sem Google og Facebook vita um þig

Þar til fyrir um viku taldi ég mig nokkuð vel upplýsta um það hversu miklum upplýsingum Facebook og Google væru að safna og hefðu um mig. Svo las ég greinina Are You Ready? Here is all the data Facebook and Google have on you.

Enn þjarmað að Facebook

Facebook baðst í gær afsökunar á því að hafa geymt myndbönd sem notendur höfðu sett inn og síðan valið að eyða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×