Fótbolti

Dönsk landsliðsstjarna fékk lungnabólgu á Algarve mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nadia Nadim.
Nadia Nadim. Vísir/Getty
Það var ekki eins gott veður og oft áður þegar Algarve mótið fór fram í Portúgal á dögunum. Það fengu íslensku landsliðskonurnar að kynnast en líka þær dönsku.

Nadia Nadim er stjarna danska landsliðsins og lykilmaður á bak við silfurverðlaun liðsins á Evrópumótinu í Hollandi síðsta sumar.

Nadia Nadim hefur misst af nokkrum leikjum með liði sínu Manchester City eftir að það kom í ljós að hún hefði fengið lungnabólgu á Algarve mótinu.





„Ég byrjaði mjög vel hjá Manchester City en hef verið að glíma við veikindi eftir að ég kom heim frá Algarve. Ég var með lungnabólgu,“ sagði Nadia Nadim við DR en hún ætti að þekkja vel til viðbragðanna við lungabólgu enda að í læknisnámi meðfram fótboltanum.

Nadia Nadim hefur náð sér á ný og hefur spilað síðustu leikina með liði Manchester City sem á enn möguleika á að vinna þrefalt á þessu tímabili.

Liðið er komið í undanúrslitin bæði í Meistaradeildinni sem og í enska bikarnum og er síðan í baráttu við Chelsea um enska meistaratitilinn.

Nadia Nadim hefur skorað 23 mörk í 78 landsleikjum þar af þrjú þeirra á móti Íslandi. Fyrsta landsliðsmarkið hennar kom einmitt á móti Íslandi á Algarve mótinu árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×