Erlent

Lula með forystu í könnunum þrátt fyrir spillingardóm

Kjartan Kjartansson skrifar
Margir stuðningsmenn Lula halda enn tryggð við hann þrátt fyrir spillingardóminn.
Margir stuðningsmenn Lula halda enn tryggð við hann þrátt fyrir spillingardóminn. Vísir/EPA
Skoðanakannanir í Brasilíu benda til þess að Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti landsins, hafi aukið forskot sitt á mótherja sína fyrir forsetakosningar sem fara fram í október. Lula situr nú í fangelsi sakaður um spillingu í embætti.

Búist er við því að kjörstjórn Brasilíu banni Lula að bjóða sig fram vegna dóms sem hann hlaut fyrir spillingu í janúar. Lula var forseti Brasilíu frá 2003 til 2011. Hann var sakfelldur fyrir að hafa þegið mútur frá verktakafyrirtæki þegar hann sat í embætti. Á móti hafi verktakafyrirtækið fengið ábatasama samninga við ríkisolíufyrirtækið Petrobras.

Reuters-fréttastofan segir að þrátt fyrir það hafi Lula aukið forskot sitt í skoðanakönnunum um næstum því fimm prósentustig. Samkvæmt þeim stæði hann uppi sem sigurvegari forsetakosninganna fengi hann að bjóða sig fram.

Lula mælist nú með 37,3% fylgi. Jair Bolsonaro, leiðtogi hægrimanna, kemst næst Lula með 18,3%.


Tengdar fréttir

Fyrrum forseti Brasilíu ætlar að gefa sig fram

Luis Inácio Lula da Silva, fyrrum forseti Brasilíu, hefur sagst ætla gefa sig fram til yfirvalda þar í landi eftir að hafa hlotið 12 ára dóm fyrir spillingu og mútuþægni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×