Innlent

Hjálpaði sjálfur til við björgunina

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sautján tonna beltagrafa valt ofan af vélarvagni og ofan á mann við bæinn Uxahrygg í Rangárþingi Ytra.
Sautján tonna beltagrafa valt ofan af vélarvagni og ofan á mann við bæinn Uxahrygg í Rangárþingi Ytra. Vísir
Maðurinn sem lenti undir gröfu við bæinn Uxahrygg í Rangárþingi Ytra í gærkvöldi hlaut nokkur beinbrot en er annars við ágæta heilsu. Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir það mikla mildi að ekki hafi farið verr.

Sjá einnig: 17 tonna grafa valt ofan á mann í Rangárþingi-Ytra

Brunavarnir Rangárþings og björgunarsveitir á Suðurlandi  voru kallaðar út um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi þegar sautján tonna beltagrafa valt ofan af vélarvagni við bæinn Uxahrygg í Rangárþingi Ytra. Grafan lenti ofan á manni sem hafði unnið að því að ná gröfunni af vagninum.  Alls tóku á bilinu þrjátíu til fjörtíu slökkviliðs-, björgunarsveitar-  og lögreglumenn þátt í aðgerðinni.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að viðbragðsaðilar hafi þurft að nota öll sín tæki og tól til þess að ná manninum undan gröfunni.

„Svo eru bændur þarna í kring sem koma með dráttarvélar og lyftara. Þessir hreinlega vaða bara á vélina og með því tekst að lyfta henni nægilega til þess að hægt sé að klippa ökumannshúsið og draga hann undan vélinni.“

Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi.Vísir
Þá segir Oddur að maðurinn hafi verið með meðvitund allan tímann sem björgunaraðgerðir stóðu yfir.

„Hann var sjálfur að aðstoða við björgunina. Hann var sjálfur að hreyfa sig og toga sig til þannig að hægt væri að ná honum út. Það var alltaf ljós í myrkrinu að ef okkur tækista að ná honum út væri til mikils að vinna,“ segir Oddur.

Maðurinn var fastur undir gröfunni í um eina klukkustund og var síðan fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann til aðhlynningar. Hann hlaut nokkur beinbrot en er annars talinn við ágæta heilsu og segir Oddur það mikla mildi að ekki hafi farið verr.

„Hann er inniliggjandi ennþá á spítala og verður það væntanlega í einhverja daga en útlitið er nokkuð bjart,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×