Innlent

Telur tillögur gott innlegg í viðræður við ríkið um samgöngumálin

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Frá undirritun viljayfirlýsingar um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Frá undirritun viljayfirlýsingar um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
„Þetta eru góðar tillögur. Það er bæði verið að ræða stofnvegi og almenningssamgöngur. Nú er það stóra verkefnið að ná samkomulagi milli allra aðila um forgangsröðun og fjármögnunarleiðir,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, um skýrslu viðræðuhóps um samgöngur.

Hópurinn starfaði á grundvelli viljayfirlýsingar samgönguráðherra og SSH. Verkefnið var að leggja grunn að samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan hefur verið kynnt ráðherra og stjórnarformanni SSH og verður gerð opinber í næstu viku.

„Ég lít svo á að þessar tillögur séu mjög gott innlegg í frekari viðræður við ríkið,“ segir Rósa. Mikil vinna verði að komast að samkomulagi.

„Við erum 65 prósent íbúa landsins en aðeins einn þriðji fjármagnsins sem settur er í samgöngumál í landinu fer til þessa svæðis. Það eru vonbrigði en við verðum að spila úr þessari stöðu,“ segir Rósa.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru í tillögunum hugmyndir um fyrsta áfanga borgarlínu sem áætlað er að verði framkvæmdur 2021-2023.

Byrjað yrði á leiðinni frá Hlemmi upp á Ártúnshöfða og frá Hlemmi niður í miðbæ. Einnig yrði tenging suður í Hamraborg og Kársnes í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×