Innlent

Mínútuspursmál að ekki fór illa í Grafarvogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi brunans á fjórða tímanum í dag.
Frá vettvangi brunans á fjórða tímanum í dag. Vísir/Jói K
Eldur kom upp í íbúðarhúsi við Starengi í Grafarvogi um klukkan þrjú í dag. Betur fór en á horfðist þökk sé skjótum viðbrögðum slökkviliðs. Börn voru inni þegar eldur kom upp en að sögn Sigurbjörns Guðmundssonar varðstjóra komust allir heilir út ásamt gæludýrum.

„Það var talsverður eldur í eldhúsi og nokkur reykur út um glugga. Við sendum reykkafara strax inn og þeir náðu mjög fljótt tökum á þessu,“ sagði Sigurbjörn í samtali við fréttastofu. Fólk var innanhúss þegar eldurinn kom upp.

„Það voru börn þarna inni en þau voru komin út þegar við komum á staðinn. Allir sluppu heilir og líklega gæludýr líka sem voru komin þarna út.“

Sigurbjörn segir að í framhaldinu standi yfir vinna sem feli í sér að passa upp á að það sé enginn hiti.

„Passa að það séu engar glæður sem leynast. Svo erum við bara að hreinsa upp vatn og ljúka slökkvistarfi. Þetta hefði getað farið mun verr. Þetta var bara mínútuspursmál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×