Erlent

Pútín dýfði sér í ísilagt vatn í tilefni þrettándans

Kjartan Kjartansson skrifar
Pútín er 65 ára gamall en lét sér ekki muna um að skella sér í ískalt vatnið.
Pútín er 65 ára gamall en lét sér ekki muna um að skella sér í ískalt vatnið. Vísir/AFP
Rússneska rétttrúnaðarkirkjan fagnaði þrettándanum í gær og dýfði Vladimír Pútín sér í jökulkalt vatn í tilefni dagsins. Þetta var í fyrsta skipti sem forsetinn fær sér ísbað á þrettándanum opinberlega.

Rússneskar sjónvarpsstöðvar sýndu myndir af Pútín þegar hann steig ofan í Seliger-vatnið í norðvesturhluta Rússlands.  Gat var skorið í ísinn þar sem Pútín og fleiri tilbiðjendur hættu sér ofan í hrollkalt vatnið.

Samkvæmt hefðum rétttrúnaðarkirkjunnar er vatn sem prestar blessa í þrettándavikunni talið heilagt og hreint. Trúa sumir því að vatnið hafi lækningarmátt, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Líklega hafa fáir þjóðarleiðtogar birst eins og oft hálfnaktir á myndum og Pútín. Frægar eru myndir af honum þar sem hann sést á hestbaki eða við aðra karlmannlega iðju ber að ofan.

Á þrettándanum fagna rétttrúnaðarmenn skírn Jesú.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×