Erlent

Vill afnema bann við fóstureyðingum á Írlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsfólk réttinda kvenna til fóstureyðinga á Írlandi krefst þess að stjórnarskrárákvæði um réttindi fóstra verði afnumið.
Stuðningsfólk réttinda kvenna til fóstureyðinga á Írlandi krefst þess að stjórnarskrárákvæði um réttindi fóstra verði afnumið. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Írlands segist ætla að berjast fyrir því að bann við fóstureyðingum í landinu verði afnumið úr stjórnarskrá. Kröfur höfðu verið uppi um að ráðherrann gerði grein fyrir afstöðu sinni.

Írska stjórnarskráin gefur fóstrum sama rétt til lífs og konunum sem ganga með þau. Dómstólar hafa túlkað ákvæðið sem bann við fóstureyðingum í nær öllum tilfellum, þar á meðal nauðgana, sifjaspells og fósturgalla.

Stuðningur við afnám bannsins hefur farið vaxandi á meðal Íra síðustu árin. Í skoðanakönnun sem Irish Times birti í gær sögðust 56% fylgjandi því að afnema stjórnarskrárákvæðið og leyfa fóstureyðingar fram að tólftu viku meðgöngu.

Meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf til þess að breyta stjórnarskrá Írlands. Ríkisstjórn Leo Varadkar, forsætisráðherra, hefur lofað að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu í ár, að því er segir í frétt New York Times.

Persónulega afstaða Varadkar hefur ekki legið skýr fyrir. Hann hefur talað um að gera ætti löggjöfina frjálslyndari en þar til nú hefur hann neitað að segja hvort að hann myndi berjast fyrir afnámi stjórnarskrárákvæðisins.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í gær tók ráðherrann af öll tvímæli.

„Ég ætla að berjast fyrir því að þeim verði breytt og gerð frjálslyndari, já,“ sagði Varadkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×