Innlent

Leki kom upp um kannabisræktun í Háaleiti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Plönturnar voru gerðar upptækar.
Plönturnar voru gerðar upptækar. Vísir/Stefán
Íbúar í fjölbýlishúsi í Hálaleitishverfi kölluðu á lögreglu laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi vegna vatnsleka frá íbúð í húsinu. Íbúðin var mannlaus, en lögregla dirkaði upp útihurðina og kom þá í ljós að verið var að rækta kannabis í íbúðinni.

Slökkviliðið var kallað á vettvang vegna lekans, en lögregla lagði hald á plöntur og tæki til ræktunarinnar. Ekki kemur í ljós í skeyti lögreglu hvort lekinn stafaði frá vökvunarkerfi vegna ræktunarinnar, eða öðru. Þá er heldur ekki greint frá því hvort haft hafi verið upp á eigenda íbúðarinnar, eða jafnvel hinum grunaða ræktanda, vegna málsins.

Af öðrum fíkniefnamálum næturinnar er það að segja að lögreglan hafði afskipti af þremur mönnum í bifreið, er var lagt í bifreiðastæði við Furugrund í Kópavogi. Að sögn lögreglunnar var „mikil fíkniefnalykt“ í bifreiðinni og framvísaði einn mannanna ætluðum fíkniefnum eftir að lögreglumenn spurðust fyrir. Málið er sagt hafa verið afgreitt á vettvangi.

Þá var brotist inn í hús í vesturbæ Kópavogs skömmu fyrir kvöldfréttir í gærkvöldi. Ekki er vitað hvort eða hverju var stolið þar sem íbúar hússins eru sagðir vera erlendis. Búið var þó að „róta mikið á vettvangi,“ eins og lögreglan kemst að orði í skeyti sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×