Fótbolti

Neymar verður næstum tvöfalt dýrari en síðast ef hann fer til Real Madrid í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar er dýr.
Neymar er dýr. Vísir/Getty
Spænska stórliðið Real Madrid vill fá brasilísku ofurstjörnuna Neymar frá Paris Saint-Germain í sumar en það mun kosta sitt: Litlar 400 milljónir evra eða 50 milljarða íslenskra króna.

Neymar varð dýrasti leikmaður sögunnar þegar að PSG keypti hann frá Barcelona síðasta sumar fyrir 222 milljónir evra en nú gæti farið svo að franska félagið þurfi að selja Brassann.

Parísarliðið er í allskonar veseni tengdu fjármálareglum FIFA (Financial Fair Play) eftir kaupin á Kylian Mpabbé og þá veit Real Madrid af því að Neymar vill komast aftur til Spánar.

Samkvæmt frétt spænska íþróttablaðsins AS sat faðir Neymars fund með forráðamönnum Real Madrid ásamt lögfræðingum feðganna á dögunum en þar var ræddur möguleiki á kaupum Real Madrid á leikmanninum í sumar.

Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG, hefur margsinnis sagt að Neymar sé ekki til sölu en nú gæti hann losnað fyrir 400 milljónir evra sem er næstum tvöfalt meira en hann kostaði síðasta sumar.

Florentino Pérez, forseti Real Madrid, vill fá Neymar til spænsku höfuðborgarinnar en hann lét hafa eftir sér á dögunum að Neymar ætti mun meiri möguleika á að verða kjörinn besti leikmaður heims ef hann spilaði fyrir Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×