Innlent

Skoða að gera fimmta árið í náminu að launuðu starfsnámi

Sunna Sæmundsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir að ríki og sveitarfélög þurfi að vinna betur saman að málefnum leikskólanna í landinu.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir að ríki og sveitarfélög þurfi að vinna betur saman að málefnum leikskólanna í landinu.
Til greina kemur að gera fimmta árið í kennaranámi að launuðu starfsnámi og að breyta námslánum kennaranema að einhverju leyti í styrk til að bregðast við dræmri aðsókn að sögn Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Ráðherra segir einnig nauðsynlegt að bjóða kennurum samkeppnishæf laun.

Mikill kennaraskortur í grunnskólum er yfirvofandi á næstum árum sökum þess að dregið hefur úr nýliðun og brotthvarf kennara á fyrstu starfsárum hefur aukist. Eftir að kennaranám var lengt árið 2009 úr þremur árum í fimm minnkaði aðsókn talsvert.

Verið er að móta nokkrar tillögur sem eiga að taka á þessum vanda í menntamálaráðuneytinu. Ráðherra segir ekki koma til greina að færa námið aftur niður í þrjú ár en til skoðunar að hafa fimmta árið launað verklegt starf.

„Ein af þessum tillögum sem verkefnastjórnin okkar er núna með og er að vinna úr er að fimmta árið verði nám á vettvangi og að það yrði launað.“  Þá gæti hluti námslána kennaranema orðið að styrk.

„Við ætlum að setja inn hvata, það er að segja að breyta hluta af námsláni yfir í styrk. Ég hef nýverið skipað nýja verkefnastjórn sem er mjög öflug og er að fara yfir þessa þætti og við sjáum til hvað kemur út úr því.“ Til þess að gera starfið eftirsóknarverðara þurfi einnig að bjóða samkeppnishæf laun.

„Við þurfum að hafa launin þannig að þau séu samkeppnishæf. Þau þurfa að vera samkeppnishæf. Til þess að auka eftirspurnina eftir kennarastarfinu þá þarf bæði að hafa laun sem eru samkeppnishæf og aðstæðurnar þurfa að vera góðar,“ svaraði Lilja aðspurð hvort hækka þurfi laun kennara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×