Fótbolti

Þjálfari sagði við Beckham að hann myndi aldrei spila fyrir England

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Beckham náði lengra en margir héldu.
David Beckham náði lengra en margir héldu. vísir/getty
David Beckham, fyrrverandi fyrirliða enska landsliðsins í fótbolta, var tjáð af þjálfara hjá yngri landsliðum Englands þegar að hann var tólf ára að hann ætti sér enga framtíð í boltanum.

Beckham þótti ekki nægilega sterkbyggður til að verða alvöru fótboltamaður en hann átti á endanum fínasta feril. Enski landsliðsmaðurinn varð landsmeistari í fjórum löndum og vann Meistaradeildina með Manchester United árið 1999.

„Þegar að ég var tólf ára sagði þjálfari hjá yngri landsliðum Englands við mig að ég myndi aldrei spila landsleik fyrir England,“ sagði Beckham á blaðamannafundi í Jakarta í Indónesíu þar sem hann er í heimsókn.

„Ég var að reyna að komast inn í fótboltaakademíu en mér var sagt að ég væri of lítill, ekki nógu sterkur og að ég myndi aldrei spila fyrir landið mitt.“

Beckham var þekktur fyrir ótrúlega spyrnugetu en hann lagði mikið á sig til að ná eins langt og hann mögulega gat.

„Þrjátíu árum síðar var ég búinn að spila 115 landsleiki fyrir England og var fyrirliði liðsins. Ég spilaði á þremur heimsmeistaramótum og átti í heildina mjög góðan feril,“ sagði Beckham.

„Skilaboð mín til ungra krakkar eru, að það koma erfiðir tímar og erfiðar stundir en hafið trú á ykkur, skemmtið ykkur og njótið þess sem þið eruð að gera og elskið leikinn,“ sagði David Beckham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×