Innlent

Hreinsuðu NATO-verkið að mestu eftir spjöllin

Kjartan Kjartansson skrifar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skemmdarverk hafa verið unnin á verkinu, sem er í umsjón Listasafns Reykjavíkur.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skemmdarverk hafa verið unnin á verkinu, sem er í umsjón Listasafns Reykjavíkur. Mynd/Aðsend
Starfsmenn Listasafns Reykjavíkur reyndu að ná mestu af óhreinindunum sem var atað yfir listaverkið Tuttugu loga á Hagatogi í gær. Forvörður tekur verkið út á morgun til að ákveða næstu skref. Svo virðist sem að um mótmæli gegn framferði Tyrkja í Sýrlandi hafi verið að ræða.

Listaverkið var tjargað og fiðrað auk þess sem málað var yfir nafn Tyrklands með rauðri málningu í gær. Þá voru logar brotnir af verkinu en logarnir eiga að vera tákn um NATO-þjóðirnar tuttugu. Enginn hefur enn þorað að gangast við skemmdarverkunum undir nafni.

Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur, hugaði að verkinu í morgun en það er í eigu Reykjavíkurborgar.

„Við erum að taka mesta af því núna. Svo fæ ég forvörð til þess að kíkja með mér á morgun til að sjá hvort það sé önnur efni sem þarf að nota til þess að ná þessu af almennilega,“ segir hann í samtali við Vísi.

Viðkvæm efni

Hann segir listaverk af þessu tagi viðkvæm og oft megi efnin í þeim ekki við miklu.

„Þó að þetta sé úr bronsi þá er platínuhúð sem er viðkvæm og það verður að flýta sér hægt í svoleiðis málum,“ segir Sigurður Trausti.

Verkið stendur á Hagatorgi í vesturbæ Reykjavíkur. Það var afhjúpað árið 2002 í tilefni af stofnun sameiginlegs samstarfsráðs NATO-ríkjanna og Rússlands á Hótel Sögu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem spjöll eru unnin á því.

Í nafnlausri ábendingu sem barst fjölmiðlum í gærkvöldi sagði að loginn hafi síðan þá smánað ásjónu borgarinnar.

„Hann er stöðug áminning um tilætlaða undirgefni okkar við stórveldi og hernaðarsamfélag. Þessa dagana drepur Nato-þjóðin Tyrkland, með þöglu samþykki Rússlands og Nato-þjóðanna, frelsisbyltinguna í Rojava í Sýrlandi -- menn, konur og börn. Veimiltítuleg mótmæli Vesturlanda hafa holan hljóm. Þeim þykir vænna um vinskap fasistans Erdogan en um það samfélag réttlætis sem hann er að ráðast á. Þessi lydduháttur mun verða þeim og okkur til ævarandi smánunar. Minnisvarði um samstarfið sem leyfir Erdogan að níðast og drepa á ekki heima hér eða nokkursstaðar,“ segir þar jafnframt en ekkert nafn fylgdi ábendingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×