Fótbolti

Skalli Bonucci dugði ekki til gegn gömlu félögunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bonucci í kröppum dansi ásamt Chiellini í leiknum í kvöld.
Bonucci í kröppum dansi ásamt Chiellini í leiknum í kvöld. vísir/afp
Juventus heldur áfram sigurgöngu sinni í ítölsku úrvalsdeildinni. Í kvöld vann liðið 3-1 sigur á öðru stórveldi, AC Milan, en leikurinn var hin fínasta skemmtun.

Paulo Dybala kom Juventus yfir strax á áttundu mínútu en AC Milan voru ekki af baki dottnir. Það var enginn annar en Leonardo Bonucci sem jafnaði metin gegn sínum gömlu félögum á 28. mínútu en hann spilað með Juventus í sjö ár.

Staðan var 1-1 allt þangað til á 79. mínútu þegar fyrrum Chelsea-maðurinn Judan Cuadrado kom Juventus yfir og Sami Khedira innsiglaði svo sigurinn þremur mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 3-1.

Juventus er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar eftir að Napoli gerði 1-1 jafntefli við Sassuolo í dag. Juventus hefur ekki tapað í deildinni síðan 19. nóvember. Milan er í sjötta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×