Erlent

Egyptar loka enn einum fréttavefnum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Abdul Fattah al-Sisi þarf að bíða í næstum viku í viðbót áður en hann getur fagnað sigri.
Abdul Fattah al-Sisi þarf að bíða í næstum viku í viðbót áður en hann getur fagnað sigri. Vísir/AFP
Yfirvöld í Egyptalandi lokuðu á fréttavefinn al-Manassa í gær eftir að miðillinn hafði fjallað um meint brot á kosningalögum sem eiga að hafa átt sér stað í forsetakosningum vikunnar.

„Vefsíðu al-Manassa var lokað eftir umfangsmikla umfjöllun um forsetakosningarnar þar sem greint var frá fjölda lögbrota, meðal annars mútuþægni og ólöglegum áróðri til kjósenda,“ sagði í tísti frá miðlinum.

Egyptar hafa lokað á fjölda einkarekinna fjölmiðla undanfarin misseri og hafa stjórnarandstæðingar kvartað yfir því að með því sé Abdul Fattah al-Sisi forseti að reyna að þagga niður í gagnrýnendum.

Búist er við því að Sisi vinni sigur í kosningunum en úrslita er að vænta eftir helgi. Á móti honum bauð hinn lítt þekkti Moussa Mostafa Moussa sig fram. Sá hefur verið kallaður strengjabrúða Sisis. Framboð hans er sagt eingöngu til þess fallið að láta kosningarnar líta trúverðuglegri út, en fjölda stjórnarandstæðinga var meinað að bjóða sig fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×