Boðað hefur verið til neyðarfundar hjá Sameinuðu þjóðunum vegna loftárása vesturveldanna þriggja; Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á borgir í Sýrlandi í nótt. Fundurinn er að beiðni rússneskra yfirvalda og fer fram síðdegis. The Guardian segir frá þessu.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sagði árásirnar bæta gráu ofan á svart og þá sakar hann ríkin þrjú um ofbeldi.
Assad segist tvíelfdur
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að loftárásir vesturveldanna hafi orðið til þess að Sýrlendingar séu nú tvíelfdir í baráttu sinni gegn hryðjuverkum og þá sakaði hann Bandaríkin, Bretland og Frakkland um að vera bandamenn hryðjuverkamanna í Sýrlandi. Assad hringdi í morgun í Hassan Rouhani, forseta Írans. Rouhani fordæmdi árásirnar og sagðist styðja Assad.
Rannsókn á efnavopnaárásinni heldur áfram
Í tilkynningu frá Efnavopnastofuninni í Haag (OPCW) segir að rannsókn haldi áfram á meintum efnavopnaárásum Sýrlandsstjórnar þrátt fyrir loftárásir vesturveldanna.

