Handbolti

Íslendingaliðin úr leik í Meistaradeildinni | Kiel tapaði með minnsta mun

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. vísir/getty
Tveir Íslendingar voru í eldlínunni í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta í dag.

Tandri Már Konráðsson stóð vaktina í vörn Skjern þegar liðið fékk Nantes í heimsókn. Tandra og félaga beið verðugt verkefni þar sem þeir þurftu að vinna upp sex marka mun frá því í fyrri leiknum í Frakklandi. Liðin skildu jöfn í dag, 27-27 og er Nantes því komið í undanúrslit.

Kasper Sondergaard var markahæstur hjá Skjern með átta mörk en Dominik Klein var atkvæðamestur gestanna með fimm mörk.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel eru sömuleiðis úr leik eftir jafntefli gegn ríkjandi Evrópumeisturum Vardar í dag. Kiel tapaði heimaleiknum með einu marki, 28-29 en lokatölur leiksins í dag urðu 28-28.

Grátleg niðurstaða fyrir Alfreð og félaga þar sem liðinu vantaði aðeins eitt mark til að knýja fram framlengingu.

Vuko Borozan var markahæstur hjá heimamönnum með sex mörk en þeir Miha Zarabec, Patrick Wiencek og Niclas Ekberg voru allir með fimm mörk fyrir Kiel.

PSG, Nantes og Vardar eru því búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar en nú fer senn að hefjast síðari leikur Montpellier og Flensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×