Leikkonan Ashley Judd höfðar mál gegn Harvey Weinstein, kvikmyndaframleiðanda, fyrir að hafa komið í veg fyrir að hún fengi kvikmyndahlutverk.
Hann hafi beitt áhrifum sínum í Hollywood og komið í veg fyrir framgang hennar í starfi. Harvey á að hafa brugðist illa við þegar Judd hafnaði kynferðislegum umleitunum hans. Hann hafi fundið sig knúinn til þess að hefna sín á Judd.
My legal complaint. I am suing for economic remedy due to damage done to my career as a result of sexual harassment. Financial recuperation goes to @TIMESUPNOW @TIMESUPLDF so that American workers who experince sexual harassment & retaliation have help. https://t.co/Nod3fXgVk3
— ashley judd (@AshleyJudd) April 30, 2018
Farið á mis við tækifæri vegna Weinstein
Í einkaviðtali á ABC news segir Judd:„Ég hef farið á mis við tækifæri í starfi. Ég hef tapað peningum. Ég hef misst minn sess, mína virðingu og vald yfir eigin starfsferli. Þetta er bein afleiðing af því að hafa verið kynferðislega áreitt og að hafa hafnað þeirri áreitni.“
Hyggst styrkja Time's Up hreyfinguna
Judd segist ætla að láta allt fé sem hún gæti fengið í skaðabætur vegna málsóknarinnar renna til lögfræðiþjónustu Time's Up-sjóðsins.
Peter Jackson, leikstjóri, sagði í desember að Weinstein hefði komið að máli við sig og beðið sig um að sniðganga ákveðnar leikkonur þegar kæmi að því að ráða í hlutverk. Ashley Judd var á meðal þeirra sem var á „svörtum lista“ Weinstein.

Sætir lögreglurannsókn
Weinstein er 66 ára gamall og um þessar mundir dvelur hann á meðferðarstöð í Arizona. Hann er í meðferð vegna kynlífsfíknar. Weinstein er sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn yfir áttatíu konum. Hann sætir nú rannsókn lögreglu í Lundúnum, New York og Los Angeles.
Vísir sagði frá því í gær að Weinstein telji að sér verði á endanum fyrirgefið. Hann neitar þó að hafa gerst sekur um kynferðisglæpi.