Erlent

Nýr for­seti NRA hlaut dóm í tengslum við eitt mesta hneyksli banda­rískra stjórn­mála

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Oliver North á ársþingi NRA um helgina.
Oliver North á ársþingi NRA um helgina. vísir/getty
Oliver North, sem varð alræmdur á 9. áratug síðustu aldar vegna Íran-kontra-skandalsins, er nýr forseti Samtaka byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA.

North, sem vann fyrir öryggisráð Ronald Reagan í forsetatíð hans, var dæmdur árið 1989 fyrir að selja vopn til Írans. Vopnasalan var ólögleg þar sem Íran sætti viðskiptabanni en hagnaðurinn var notaður til að fjármagna kontra-uppreisnarsveitirnar í Níkaragva en Bandaríkjaforseti studdi sveitirnar.

Árið 1991 var dómnum yfir North snúið við þar sem saksóknarar töldu sig ekki geta sannað að þeir sem báru vitni gegn honum væru ekki litaðir af skýrslu sem North gaf Bandaríkjaþingi á sínum tíma um málið. Var North veitt friðhelgi varðandi það sem hann greindi frá í þeirri skýrslutöku.

Íran-kontra-skandallinn er eitt mesta hneyksli síðari tíma í bandarískum stjórnmálum og því vekur það óneitanlega athygli að NRA skuli velja sér North sem forseta nú.

North hefur á undanförnum árum reynt fyrir sér sem stjórnmálaskýrandi og sjónvarpsmaður en hann starfaði á sjónvarpsstöðinni Fox News.

Samtök byssueigenda eru ein stærstu og öflugustu hagsmunasamtökin í Bandaríkjunum en barátta þeirra fyrir rétti fólks til að eiga byssur er umdeild, ekki síst í ljósi þeirra fjölda skotárása sem verið hafa í landinu undanfarin misseri. Þar á meðal er ein sú mannskæðasta í sögunni þegar Stephen Paddock skaut 58 manns til bana í Las Vegas í október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×