Fótbolti

Annað glæsimark Rúnars fyrir St. Gallen

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson er hann gekk í raðir St. Gallen.
Rúnar Már Sigurjónsson er hann gekk í raðir St. Gallen. vísir/heimasíða St. Gallen
Rúnar Már Sigurjónsson heldur áfram að skora gullfalleg mörk fyrir lið sitt St. Gallen í svissnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en í gær skoraði hann eitt slíkt.

Rúnar Már skoraði annað mark St. Gallen í 4-2 tapi gegn Basel í deildinni í gær en Rúnar jafnaði metin í 2-2 á 61. mínútu áður en ríkjandi meistararnir gerðu tvö mörk áður en yfir lauk.

Mark Rúnars var af dýrari gerðinni. Hann þrumaði boltanum í netið fyrir utan teig fyrir framan rúmlega fimmtán þúsund manns á Kybun-leikvanginum í gær.

Það er ekki langt síðan að Rúnar skoraði annað glæsimark en það mark má sjá hér. Sauðkrækingurinn hefur verið að spila vel á leiktíðinni en hann berst um sæti í landsliðshóp Íslands í sumar sem leikur á HM í sumar.

Rúnar var ekki í hópnum sem fór til Bandaríkjanna í síðasta mánuði en lokahópurinn verður kynntur á föstudaginn þar sem tilkynnt verður hvaða 23 leikmenn fara tli Rússlands.

Þrumufleyg Rúnars úr leiknum í gær má sjá hér að neðan en St. Gallen er í harðri Evrópubaráttu er þrír leikir eru eftir af deildinni. Liðið er í fjórða sætinu með 45 stig, þremur stigum meira en FC Zurich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×