Erlent

Bannað að segja bjórþamb gott fyrir heilsuna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bjórdrykkja hefur dregist mikið saman í Þýskalandi á síðustu áratugum.
Bjórdrykkja hefur dregist mikið saman í Þýskalandi á síðustu áratugum. Vísir/Getty
Þjóðverjar hafa bannað bjórauglýsingar sem gefa til kynna að bjórdrykkja sé heilusamleg. Neytendasamtök í Berlín kærðu brugghúsið Harle vegna auglýsinga sem innihéldu þýska orðið bekoemmlich, sem vísar bæði til heilsu sem og til góðs bragðs. Vínframleiðendum var árið 2012 meinað að nota hugtakið í auglýsingum sínum.

Hæsiréttur Þýskalands staðfesti úrskurð lægra dómsstigs sem kvað á um að orðið mætti ekki nota í tilfelli bjóra sem innihalda meira en 1.2% vínanda. Í rökstuðningi dómsins segir að orðið bekoemmlich sé ekki aðeins vísun í bragð heldur jafnframt heilnæmi - eitthvað sem erfitt er að fullyrða um í tilfelli áfengis.

„Þjóðverjar túlka hugtakið bekoemmlich sem eitthvað sem er „heilsusamlegt,“ „heillavænlegt“ og „gott fyrir meltinguna,“ segir í rökstuðningnum.

Þegar orðið sé notað til að lýsa matvörum sé yfirleitt um að ræða eitthvað sem meltingarkerfið eigi auðvelt með að vinna úr - jafnvel þó mikils sé neytt af vörunni í lengri tíma. Mikið bjórþamb kunni þó að hafa í för með sér ýmsa heilsukvilla að sögn þýska dómstólsins.

Bjórneysla í Þýskalandi hefur dregist saman um 17 prósent frá árinu 1993. Þýskir bjórframleiðendur vonast þó til að heimsmeistaramótið í knattspyrnu, sem hefst í júní, verði til þess að auka bjórdrykkjuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×