Innlent

Kona á miðjum aldri lést í slysinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slysið varð á Suðurlandsvegi á þriðja tímanum í dag.
Slysið varð á Suðurlandsvegi á þriðja tímanum í dag. Vísir
Íslensk kona á miðjum aldri lést í slysinu sem varð Suðurlandsvegi í dag. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, en áður hafði komið fram að hin látna væri Íslendingur.

Sjá einnig: Íslendingur lést í slysinu á Suðurlandsvegi

Konan var ein í bílnum þegar slysið varð. Í hinum bílnum voru þrír erlendir ferðamenn, allir karlmenn á miðjum aldri, en þeir eru enn á sjúkrahúsi. Sveinn segir tvo þeirra nokkuð mikið slasaða en þann þriðja eitthvað minna. Þá hyggst lögregla ekki upplýsa um það fyrr en á morgun í samráði við viðeigandi sendiráð hvert þjóðerni mannanna er.

Rannsókn á slysinu stendur enn yfir og ekki fengust frekari upplýsingar um tildrög þess. Sveinn segir þó aðstæður og færð á vettvangi hafa verið ágætar og allir í bílunum tveimur hafi jafnframt verið í belti.

Slysið varð á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Landeyjarhafnarvegi á þriðja tímanum í dag. Suðurlandsvegi var í kjölfarið lokað vegna slyssins en hann var svo opnaður á ný um klukkan 20 í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×