Erlent

Eldklerkurinn Sadr líklegur sigurvegari kosninga í Írak

Vísir/EPA
Allt útlit er fyrir að Sairoon bandalag eldklerksins Muqtada al Sadr standi upp sem sigurvegari þingkosninganna í Írak. Búið er að telja meira en 91% atkvæða en flest þau atkvæði sem á eftir að telja eru í héröðum þar sem sem Sairoon bandalagið bauð ekki fram.

Sadr er af valdamikilli fjölskyldu sjía-múslimaklerka í Írak og var áhrifamesti klerkur landsins misserin eftir fall stjórnar Saddams Hussein. Hann leiddi uppreisnarsveitir sem nefndust Sadr sveitirnar og ögruðu stjórnvöldum í Bagdad.

Þrátt fyrir trúarlegar tengingar sjía-múslima við Íran hefur Sadr forðast að mynda sterk tengsl við þarlend öfl. Íranar hafa því reynt að draga úr áhrifum hans og styrkja núverandi ráðamenn í Bagdad.

Fyrir kosningarnar myndaði Sadr bandalag við kommúnista og aðrar minni hreyfingar og það virðist hafa borið tilætlaðan árangur. Standi hann uppi sem sigurvegari kosninganna verður það að teljast töluvert áfall fyrir írönsk stjórnvöld sem hafa til þess haft afar sterk ítök í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×