Erlent

AFP og Facebook taka höndum saman gegn falsfréttum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Michele Leridon, ritstjóri AFP er ánægð með samstarfið.
Michele Leridon, ritstjóri AFP er ánægð með samstarfið.
Stjórnendur frönska fréttaveitunnar AFP ætla að setja á laggirnar nýjar vefsíður sem miða að því að sannreyna staðreyndir í fréttum með því að halda úti staðreyndavakt sem verður á ensku, spænsku og portúgölsku. Samskiptamiðillinn Facebook styður verkefnið fjárhagslega, að því er fram kemur í tilkynningu frá AFP.

Facebook hefur hlotið mikla gagnrýni að undanförnu vegna þess að upplognar fréttir hafa komist í dreifingu hjá miðlinum og var það mest áberandi í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Þessar nýju vefsíður verða helgaðar baráttunni gegn falsfréttum. Megintilgangur þeirra verður að sannreyna fréttir, hrekja falsfréttir og reyna að koma í veg fyrir að ósannindin komist í dreifingu á veraldarvefnum.

Í fyrstu eiga síðurnar að hverfast eingöngu um fréttir frá Brasilíu, Kólumbíu og Mexíkó en síðar meir er gert ráð fyrir því að fleiri lönd bætist í hópinn. Gert er ráð fyrir því að fréttamenn AFP-fréttaveitunnar leggi sitt af mörkum til staðreyndavaktarinnar.

„Við erum að grípa til að gerða til að minnka umfang falsfrétta á okkar vettvangi, en við vitum að við höfum ekki burði til þess að gera þetta ein,“ segir Tessa Lyons, einn stjórnenda Facebook sem segir að AFP sé mikils virtur fréttamiðill.

Michele Leridon, ritstjóri AFP, er hæstánægð með samstarfið við Facebook. „Þetta er til vitnis um sérþekkingu AFP og getu miðilsins til að sannreyna staðreyndir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×