Erlent

Dæmdur til að flytja af heimili foreldra sinna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Michael Rotondo í dómssal í dag.
Michael Rotondo í dómssal í dag. Vísir/AFP
Hæstaréttardómari í New York dæmdi í dag 30 ára mann til þess að flytja að heiman. Foreldrar Michael Rotondo höfðu í marga mánuði reynt að fá son sinn til þess að flytja að heiman þegar þau brugðu á það að leita aðstoð lögfræðings.

Þau byrjuðu á því að skrifa honum formlegt bréf þar sem hann var beðinn að flytja. Í bréfinu stóð meðal annars: „Það eru líka störf í boði fyrir fólk með lélega ferilskrá eins og þú.“ Þegar það hafði ekki áhrif fengu þau lögfræðinginn til þess að útbúa formlegt útburðarbréf sem Rotondo fékk afhent 13. febrúar.

Í frétt BBC kemur fram að foreldrarnir hafi reynt að bjóða syni sínum peninga fyrir að flytja út. Voru þau sérstaklega ósátt við að hann borgaði ekki leigu og aðstoðaði ekki við heimilisverkin.

Á endanum fóru foreldrarnir með málið fyrir dómsdóla. Í apríl leituðu þau til dómsyfirvalda í New York en fengu þau svör að þetta þyrfti að fara fyrir hæstarétt.

Í dag var málið tekið fyrir og var útburðarbeiðnin samþykkt svo Rotondo þarf nú að yfirgefa heimilið. Maðurinn reyndi að fá hæstarétt til þess að vísa málinu frá og sagði foreldra sína í hefndarhug samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar. Hann sagði við blaðamenn eftir að dómurinn var kveðinn upp að hann byggi í einu herbergi á heimili foreldra sinna og talaði ekkert við þau en væri einfaldlega ekki tilbúinn til þess að flytja að heiman.

Málið þykir minna á söguþráð Hollywood kvikmyndarinnar Failure to Launch en þar reyna foreldrar fullorðins mans allt til þess að fá hann til þess að fljúga úr hreiðrinu, meðal annars borga þau konu fyrir að þykjast vera kærastan hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×