Erlent

Gina Haspel, forstjóri CIA, ætlar að senda fleiri njósnara á vettvang

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gina Haspel er nýr forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar. Nýjar áherslur fylgja nýjum forstjóra.
Gina Haspel er nýr forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar. Nýjar áherslur fylgja nýjum forstjóra. Vísir/AFP
Gina Haspel tók í dag formlega við starfi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar í höfuðstöðvum CIA í Langley, norður Virginíu. Hún tilkynnti starfsfólki sínu um væntanlegar áherslubreytingar hjá leyniþjónustunni sem yrðu undir sinni forystu. Hún tekur við starfi Mike Pompeo, fyrrverandi forstjóra CIA.

Hún lofaði því að senda fleiri njósnara á vettvang og auk þess sem hún hyggst auka færni starfsfólks í erlendum tungumálum, styrkja samvinnu CIA við aðrar leyniþjónustur í Bandaríkjunum og víða um heim. Haspel segist leggja höfuðáherslu á hryðjuverkaógnina og kerfisbundnar ógnir við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.



Gina Haspel tók formlega við starfi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA í viðurvist Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.Vísir/afp
Segist standa í þakkarskuld við konur innan CIA

Haspel er fyrst kvenna til að gegna stöðu forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar. Hún sagðist standa í þakkarskuld við kvenkyns starfsmenn leyniþjónustunnar sem ruddu brautina fyrir aðrar konur innan fagsins. Starf þessara kvenna hafi reynst Haspel mikill innblástur.

Megi ekki dvelja um of í fortíðinni

Tilnefning Haspel hefur verið harðlega gagnrýnd en hún stýrði leynifangelsi CIA í Taílandi árið 2002 þar sem grunaðir hryðjuverkamenn voru beittir vatnspyntingum. Í framhaldinu tók hún þátt í að eyða sönnunargögnum um pyntingar árið 2005. Í ræðu sinni í dag lagði Haspel áherslu á að ekki væri unnt að dvelja um of í fortíðinni. „Við verðum að draga lærdóm af fortíðinni en við getum ekki dvalið í henni,“ sagði Haspel.

Sjá frétt Vísis um aðkomu Haspels að pyntingum fanga hér.

Fimmtíu og fjórir þingmenn greiddu atkvæði með tilnefningu Haspel, þar af sex Demókratar og nær allir þingmenn Repúblikanaflokksins. Fjörutíu og fimm þingmenn greiddu atkvæði á móti tilnefningunni.

Haspel er 61 árs og hefur gegnt stöðu aðstoðarforstjóra bandarísku leyniþjónustunnar síðan í febrúar 2017. Hún tók við sem starfandi forstjóri leyniþjónustunnar í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×