Fótbolti

Löw: Áttum ekki skilið að fara upp úr riðlinum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Löw á hliðarlínunni
Löw á hliðarlínunni Vísir/getty
Joachim Löw, þjálfari þýska karlalandsliðsins í fótbolta, sagði vonbrigðin gríðarleg eftir að Þýskaland féll úr leik á HM í Rússlandi. Hann vildi ekki svara spurningum um framtíð sína.

Þjóðverjar töpuðu 2-0 fyrir Suður-Kóreu í dag og eru úr leik. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem ríkjandi heimsmeistarar falla úr leik í riðlakeppninni. Þýskaland hefur komist í að minnsta kosti undanúrslit í öllum keppnum síðan 2006.

„Við áttum ekki skilið að verða heimsmeistarar og við áttum ekki heldur skilið að komast upp úr riðlinum,“ sagði Löw á blaðamannafundi eftir tapið.

„Við skiluðum ekki inn sömu frammistöðum og við erum vanir og við verðum að sætta okkur við það. Vonbrigðin við að komast ekki áfram eru gríðarleg.“

Löw vildi ekki segja neitt um framtíð sína en Þjóðverjar voru ekki sannfærandi í aðdraganda mótsins og náðu ekki að skipta um gír þegar í mótið kom.

„Við vorum vissir um það að allt myndi fara vel þegar mótið byrjaði en það gerðist ekki. Ég kenni leikmönnunum ekki um að hafa ekki viljan, við reyndum allt til loka en það gekk ekki.“

„Það er mjög erfitt að verja heimsmeistaratitil en ég veit ekki afhverju það er. Liðsandinn var góður og við vorum tilbúnir til leiks, einbeitingin var til staðar,“ sagði Löw.


Tengdar fréttir

Þjóðverjar aðeins yfir í eina mínútu á HM

Þjóðverjar eru úr leik á HM í fótbolta eftir tap gegn Suður-Kóreu í lokaleik sínum í F riðli. Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Þjóðverja en þeir voru ekki sannfærandi í mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×